Lánamál eru ofarlega í hugum margra í komandi kosningum og hafa ýmis framboð lagt vinnu við að reyna að rétta skuldastöðu heimilanna í landinu. Hinsvegar virðist það vera útfært á þann veg að það sé einskonar náttúrulögmál að bankarnir fái allt sem fólk skuldar þeim. Svosum allt fínt og flott, nema hvað að árið 2008 varð hrun. Það varð forsendubrestur á markaðnum eins og hann leggur sig, að mestu leyti einmitt vegna bankanna eða öllu heldur bankakerfisins. En það er ekki vinsælt að kenna þeim um, ekki á meðan fólk var í stríðum straumum að kaupa flatskjái og nýja ristavél og hvað eina, það var ekki eins og einhver hafi varað við þessu, allavega enginn sem var vert að hlusta á. Ég meina, þeir voru með fullt hús stiga frá flottum fyrirtækjum, og tæplega enskumælandi bankastjórar voru í gríð og erg að monta sig við erlendar stafrófs sjónvarpstöðvar um íslenska efnahagsundrið, sem virtist vera óháð öllum hefðbundum lögmálum. En síðar kom í ljós að það var útaf því að þeir fóru ekki eftir neinum hefðbundum reglum. Tóku lán til þess að kaupa fyrirtæki, lán hjá sjálfum sér til að kaupa í sjálfum sér til þess að auka eiginfjárstöðu og verðmæti á markaðnum. Svo tóku þeir lán fyrir þeim lánum og koll af kolli. Mjög sniðugt, ef þú værir að spila Monopoly og markmiðið væri ekki að vinna heldur að tapa með stíl.
Málið er að bankakerfið er hannað af bönkum fyrir banka, og það virkar mjög vel… fyrir banka. Restin er alls ekki í svo góðum málum. En viti menn, nýfrjálshyggjuflokkarnir, þessir sem einkavæddu bankana í den og komu meira og minna í veg fyrir að auðlindir væru nýttar í þágu almennings og hvað eina sniðugt, eru með fína lausn á þessum vanda. Það er í grunninn að láta ríkið borga, klikkað gæti virkað, þetta er allavega kúl, flott loforð, uhm við almenningur erum í vanda og lausnin er að við ríkið (almenningur) borga lánin, brilliant, í stað þess að borga lánin þá lánum við okkur pening til þess að borga lánin, æðislegt. En bíddu hvað með bankana? Af hverju eru þeir stikkfrí í þessu máli… af hverju er ekki bara fært niður lánin og láta þar við sitja? Byrjað uppá nýtt? Ég meina, hlutainnistæðukerfið byggir á því að þú getur lánað margfalt á við innistæðu. Í öðrum orðum, lánað pening sem er ekki til með því takmarki að fá hann til baka með vöxtum… sem eru heldur ekki til… og hvernig borgum við þá vextina… já auðvitað með lánum sillí mí. Það er ekki eins og að taka lán fyrir lánum væri slæmt, ég meina það virkaði 2007… ekki mikið eftir það en allavega þá, þannig að þetta hlýtur að vera ókei. Bankarnir hljóta að bjarga okkur þá næst fyrst að við björguðum þeim síðast er það ekki…
En hvað með að fara í rót vandans. Brjóta upp bankakerfið og minnka það. Málið er að bankarnir eru ekki of stórir, heldur er íslenskt samfélag of lítið. Þess vegna verður að minnka þá. Það verður að koma fram heildar endurskipulagning á bankakerfinu. Það þarf að hanna það að samfélaginu en ekki að bönkunum. Við þurfum kerfi sem stuðlar að verðmætasköpun en ekki að innantómum hagvexti, hagkerfi sem byggir á fólki og mannauð, ekki einhverjum tölvuleik sem á sér stað í kauphöllinni þar sem markmiðið er að fá eitthvað high score. Við þurfum Jákvæða Peninga, við þurfum að fá heildarinnistæðu bankakerfi sem vex í takt við samfélagið, ekki án þess eða þvert á það. Málið er að í dag er verið að halda uppi vitfirringu sem raunveruleika. Sem er að við verðum að borga bönkunum, annars gerist eitthvað hræðilegt, eins og átti að gerast með Icesave ef við borguðum ekki. Vondikallinn með ósýnilegu hendi markaðarins myndi hrifsa frá okkur allt sem… ja bara allt… sem er gott og fínt og flott… rökin eru u.þ.b svona allavega, allavega frá bönkunum séð.
En er ekki komið nóg…? Er ekki komið nóg af hræðsluáróðri, gylliboðum, gerfilausnum. Er ekki komið nóg af því að fæða fenrisúlfinn. Það tala allir um að fá lausn fyrir heimilin, en lausnin fyrir heimilin er ekki krónur og seðlar. Það er að geta lifað óttalaus og öruggur, óttalaus við að vera ekki numinn af brott af þínu eigin heimili og öruggur um að hafa áhyggjulausa framtíð. En það gerist ekki á meðan við höfum svona bankakerfi sem elur á ótta og óöryggi. Sem hreinlega sýgur lífið úr fólki og tryggir að fólk verði alla ævi skuldsett ef það vill eiga heimili. En málið er að bankakerfið er bara kerfi, bara eins og að spila nolo í félagsvist eða eitthvað álíka, þetta er ekki heilagur sannleikur, þetta er ekki eithvað sem er fest í stein að eilífu. Það eru til betri lausnir eins og ég bendi á hér að ofan. Það þarf ekki að borga bönkunum. Þeir þurfa að kyngja því að þeir tóku áhættu, þó að það þýði að þeir þurfi að loka útibúi eða tveim. Það er eðlilegt og ekkert að því. Það kannski verður til þess að þeir fari að hugsa sinn gang og fari að taka jákvæðan þátt í samfélaginu.