Quantcast
Channel: Árni Þór Pírati bloggar
Viewing all articles
Browse latest Browse all 5

Við erum öðruvísi :)

$
0
0
Við Píratar höfum lent svolítið í því að vera á gráu svæði almennrar skilgreininga á hvað við erum og hvað við erum ekki. Við erum á vissan hatt að blanda saman ýmsum stjórnmálahugmyndum og stefnum og líka búa til nýjar, það er voðalega erfitt að segja til um hvað er hvað þegar eitthvað er byggt á mörgum mismunandi hlutum. Stjórnmálastefnur, hvort sem er hægri/vinstri eða hvað annað sem fólk vill kalla það, eru samansafn af hugmyndum og nálgunum. Það sem Píratar gera er að skoða hverja stefnu og hugmynd fyrir sig og velja það besta, okkur tekst það með samvinnu, vandaðri upplýsingaöflun og gagnrýnni hugsun, sauma þetta allt saman með þeim hugmyndum og heimspeki sem hafa sprottið upp og orðið til með tímanum og tækninni. Hugmyndir á borð við húmanisma og samvinnu einstaklinga, sú hugmyndafræði kristallast í þeirri nálgun að það þarf að vinna með fólki ef við ætlum að ná árangri, hvort sem það sé sem samfélag eða sem einstaklingar. Tæknin hefur gert okkur kleift að sjá skýrar hvað við getum gert sem hópur fólks, hvað við getum gert sem einstaklingar, hvar geta eins endar og annars byrjar  og aukið þannig árangur.
Við erum einstaklingar sem saman mynda samfélag. Án einstaklinga er ekkert samfélag, það er engin uppbygging, engin þróun. Án samfélags hefur einstaklingur hvorki hlutverk né öryggi og fær ekki útrás fyrir því sem hann eða hún hefur fram að færa. Samfélag er framlenging á okkur sem einstaklingum og út af því getum við ekki lagt áherslu á eitt á kostnað hins án þess að það komi niður á bæði einstakingnum og samfélaginu.
Þröngt skilgreindar stefnur eiga ekki lengur við í upplýstu samfélagi og sértækar aðgerðir gagnast ekki lengur í síbreytilegu samfélagi. Þess vegna er frelsi einstaklingsins svo mikilvægt, að hann hafi svigrúm til þess að móta samfélagið að þeim veruleika sem við búum við hverju sinni. Og þess vegna er svo mikilvægt að samfélagið hlúi að einstaklingnum,  til að hann geti uppfært samfélagið að nýjum veruleika án þess að þurfa að fórna sér við það að uppfylla ábyrgð sína gagnvart samfélaginu. Þess vegna er mikilvægt að samfélagið uppfylli sína ábyrgð. Við þurfum að geta treyst samfélagi og einstaklingum og með því að veita þeim það traust og þau verkfæri til þess að sinna skyldum sínum og ábyrgð þá getum við hjálpast að að búa til veruleika sem við viljum öll.
Þetta er ekki ný hugmynd en hennar tími er kominn. Við eigum það inni hjá okkur að treysta okkur sjálfum  til þess að við getum í eitt skipti fyrir öll stigið skrefinu lengra, brotið okkur úr viðjum þröngra skilgreininga og takmarkaðra lausna. Við eigum það inni hjá okkur að reisa seglin hátt og sigla rösklega, ákveðið og með höfuðið hátt inní framtíðina, á vit ævintýra og tækifæra, í leit að fjársjóðum æskunnar með áttavita visku fortíðar, með ævintýraþrá Pírata.

Viewing all articles
Browse latest Browse all 5